Ásta Margrét og Hilmir hlutu Íslenskuverðlaun unga fólksins

Ásta Margrét M. Árnadóttir í 6. bekk og Hilmir Pálsson í 3. bekk hlutu Íslenskuverðlaun unga fólksins sem veitt voru í fimmtánda sinn við hátíðlega athöfn í Hörpu mánudaginn 21. febrúar. Verðlaununum er ætlað að auka áhuga grunnskólanema í Reykjavík á íslenskri tungu og hvetja þá til framfara í tjáningu í töluðu og rituðu máli. Verndari verðlaunanna er frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands 1980-1996.
Ásta Margrét hlaut verðlaunin fyrir að hafa gott vald á íslensku máli og skrifa líflegan texta. Frásagnir hennar eru litríkar og vinnubrögð til fyrirmyndar.
Hilmir fékk verðlaunin fyrir að búa yfir ríkulegum orðaforða og standa jafningjum framar í tjáningu, frásögn og túlkun íslenskrar tungu.
Við óskum þeim báðum innilega til hamingju með verðlaunin.