Foreldraheimsóknir
Á mánudag og þriðjudag í komandi viku, 15. og 16. mars á milli kl. 17:00 og 19:00 stendur ykkur til boða að koma í heimsókn í skólann. Tilgangurinn er að þið fáið tækifæri til að koma inn í skólahúsnæðið og skoða það með eigin augum. Heimsókn ykkar verður því miður háð takmörkunum á þeim sóttvarnareglum sem okkur ber að fylgja.
Við opnum húsnæðið fyrir 50 einstaklingum í einu, eða sem nemur einum árgangi, og biðjum um að einungis annað foreldrið komi í skólann. Við setjum niður fasta tíma fyrir hvern árgang og biðjum ykkur um að virða þann tíma. Þá bjóðum við upp á einn aukatíma fyrir þá foreldra sem ekki komust í árgangaheimsóknina. Við munum telja inn í allar heimsóknir og skipta hverjum hópi í tvennt til að gæta að sóttvörnum. Vinsamlegast hafið grímur meðferðis. Tekið verður á móti foreldrum við aðalinngang norðan megin við skólann. Dagskrá heimsókna verður með eftirfarandi hætti:
Mánudagur 15. mars kl. 17:00, 1. bekkur
Mánudagur 15. mars kl. 17:30, 2. bekkur
Mánudagur 15. mars kl. 18:00, 3. bekkur
Mánudagur 15. mars kl. 18:30, 4. bekkur
Þriðjudagur 16. mars kl. 17:00, 5. bekkur
Þriðjudagur 16. mars kl. 17:30, 6. bekkur
Þriðjudagur 16. mars kl. 18:00, 7. bekkur
Þriðjudagur 16. mars kl. 18:30, þeir sem ekki hafa komist í heimsókn með sínum árgangi (hámark 50)
Upplýsingafundur
Miðvikudaginn 17. mars kl. 17:00 verður haldinn upplýsingafundur um húsnæðismál Fossvogsskóla fyrir foreldrasamfélagið. Fundurinn verður haldinn hvort tveggja í senn í íþróttasal skólans og á Teams.
Í íþróttasalnum verða eingöngu þeir foreldrar sem fá boð um að sækja fundinn; aðrir skrá sig inn á Teams.
Fundurinn verður byggður upp á framsögu þeirra sem komið hafa að uppbyggingarstarfi í húsnæðismálum skólans og í kjölfarið gefst foreldrum tækifæri til að ræða og spyrja um stöðu húsnæðismála.
Skipulagsdagur föstudagurinn 19. mars
Samkvæmt skóladagatali er föstudagurinn 19. mars skipulagsdagur í skólanum. Þá koma eingöngu þeir nemendur í skólann sem skráðir eru í frístundina hjá Neðstalandi; aðrir eru heima.
Að lokum
Í morgun vorum við með þrenns konar öryggisæfingar fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Fyrst var æfing í viðbrögðum við jarðskjálfta. Því næst æfing í viðbrögðum við hugsanlegri eldhættu og að lokum var brunaæfing. Óhætt er að segja að nemendur hafi allir staðið sig með sóma og farið eftir því sem lagt var upp með; undir borð við jarðskjálftann, gert sig tilbúna til að yfirgefa húsið þegar hugsanleg eldhætta blasti við og farið að einu og öllu þegar ,,raunveruleg“ brunahætta steðjaði að. Í allt tók það okkur átta mínútur, nítján sekúndur og áttatíu sekúndubrot (8:19,80) frá því við fengum merki um brunahættu þar til búið var að yfirgefa húsið, fara yfir það og fullvissa okkur um að enginn væri í því og taka nafnakall á battavellinum. Vel gert Fossó!