Foreldrafélag Fossvogsskóla
Við í Fossvogsskóla erum stolt af því öfluga starfi sem fram fer á vegum foreldra og vitum að gott samstarf heimila og skóla er ein af forsendum góðs skólastarfs. Í Fossvogsskóla hefur foreldrafélag verið starfandi frá árinu 1976. Félagar í því eru allir foreldrar/forráðamenn nemenda í skólanum. Meginmarkmið félagsins er að vinna að heill og hamingju nemenda skólans og styrkja skólann í hvívetna. Foreldrafélagið hefur yfirumsjón með starfi bekkjarfulltrúa. Samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008 setur foreldrafélagið sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð.
Starfsreglur
Foreldrafélags Fossvogsskóla
- gr.
Nafn og heimili
Félagið heitir Foreldrafélag Fossvogsskóla og heimili þess er að Haðalandi 26.
Varnarþing félagsins er í Reykjavík.
- gr.
Félagar
Félagar eru allir foreldrar og forráðamenn nemenda í Fossvogsskóla.
- gr.
Hlutverk og markmið
Lögbundið hlutverk félagsins er þríþætt, þ.e. að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla.
Í þeim tilgangi að rækja hlutverk sitt skal félagið :
- Styðja skólann og skólastarfið í hvívetna
- Hvetja foreldra og forráðamenn til virkrar þátttöku í skólastarfinu
- Veita skólanum aðhald þannig að tryggt sé að allir nemendur fái þá þjónustu í skólanum sem lög kveða á um.
- Efla samstarf foreldra sín á milli og við skólastjórnendur
- Stuðla að upplýsingamiðlun milli foreldra og skóla
- Styðja við lista- og menningarstarf innan skólans.
- Stuðla að umræðu og fræðslu er varðar hlutverk foreldra auk forvarna- og uppeldismála.
- Styðja við skólasamfélagið og styrkja jákvæða ímynd þess, stuðla að jafnræði og jákvæðu viðhorfi gagnvart fjölbreytileika í skólastarfi.
- gr.
Stjórn
Stjórn foreldrafélagsins er skipuð minnst sjö manns og mest tíu manns og fer kosning fram á aðalfundi félagsins. Stjórnin skal skipuð formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og að lágmarki þremur meðstjórnendum. Stjórnarmenn skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir að ný stjórn hefur verið kosin. Æskilegt er að a.m.k. einn fulltrúi foreldra í skólaráði sé úr hópi stjórnar foreldrafélagsins. Komi til þess á miðju starfsári að stjórnarmaður geti ekki setið áfram sem slíkur er stjórn samt sem áður starfhæf til næsta aðalfundar.
- gr.
Aðalfundur
Aðalfund félagsins skal halda fyrir lok september ár hvert. Til hans skal boðað skriflega í tölvupósti til allra félagsmanna og á annan tryggilegan hátt, með minnst viku fyrirvara. Í fundarboði skal auglýsa dagskrá fundarins.
Kosin skal stjórn fyrir félagið árlega. Kjósa skal tvo fulltrúa úr hópi félagsmanna í skólaráð til tveggja ára. Skal kosning þeirra fara fram sitt hvort árið.
Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:
- Skýrsla stjórnar
- Reikningar félagsins
- Lagabreytingar
- Kosning (stjórn, skólaráð, skoðunarmenn reikninga)
- Ákvörðun félagsgjalda
- Önnur mál
- gr.
Skólaráð
Skólaráð starfar við Fossvogsskóla á grundvelli laga og er það samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Verkefni skólaráðs eru skilgreind í lögum um grunnskóla og skal skólaráð m.a. taka þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið. Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um allar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin. Skólaráð fylgist enn fremur almennt með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð nemenda.
Foreldrar og forráðamenn skulu eiga tvo fulltrúa í skólaráði úr hópi félagsmanna sbr. 5. gr. Ef annar skólaráðsfulltrúa forfallast skal fulltrúi úr stjórn foreldrafélagsins taka sæti sem varamaður.
- gr.
Nefndir á vegum foreldrafélagsins
Stjórn foreldrafélagsins er heimilt að skipa nefndir eða fulltrúa um afmörkuð viðfangsefni á vegum félagsins. Verkefni skulu afmörkuð skriflega við skipun og skulu nefndir/fulltrúar upplýsa stjórn um stöðu og framvindu þeirra eftir nánari ákvörðun stjórnar.
- gr.
Bekkjarfulltrúar
Á námskynningum í upphafi skólaárs skal velja bekkjarfulltrúa úr hópi félagsmanna og skulu þeir vera að lágmarki fjórir í hverjum árgangi. Hlutverk þeirra er að stuðla að auknu samstarfi foreldra og skipuleggja félagsstarf innan bekkjardeilda og treysta samband heimilis og skóla innan hvers árgangs. Bekkjarfulltrúar mynda fulltrúaráð foreldrafélagsins og skulu vera tengiliðir milli stjórnar foreldrafélagsins og foreldra hverrar bekkjardeildar.
- gr.
Fulltrúaráð
Fulltrúaráð skal starfa undir stjórn félagsins. Það skal koma saman eins oft og þurfa þykir en þó eigi sjaldnar en einu sinni á hverju skólaári. Stjórn félagsins undirbýr og boðar til fundar þess. Þar skulu rædd mál er varða starf bekkjarfulltrúa.
Fulltrúaráð skal aðstoða stjórn foreldrafélagsins í stærri verkefnum hvers skólaárs.
- gr.
Stjórnarfundir
Stjórnarfundir skulu boðaðir tryggilega með hæfilegum fyrirvara. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meiri hluti stjórnar sækir fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Ef atkvæði eru jöfn ræður atkvæði formanns (varaformanns) úrslitum. Ákvarðanir stjórnar skulu færðar í fundargerð.
Stjórnarfundir skulu haldnir með skólastjóra að lágmarki tvisvar á hverju skólaári.
- gr.
Reikningsár félagsins
Reikningsár félagsins skal vera frá 1. ágúst til 31. júlí ár hvert.
- gr.
Breytingar á lögum félagsins
Breytingar á reglum þessum skulu teknar til meðferðar á aðalfundi félagsins og skal efni þeirra lýst í dagskrá, sbr. 5. gr.
- gr.
Slit félags
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með 2/3 hluta atkvæða. Skal þá eignum félagsins varið í þágu nemenda Fossvogsskóla í samráði við skólastjórnendur.
- gr.
Annað
Stjórn foreldrafélagsins er ekki heimilt að hafa afskipti af ágreiningi er upp kann að koma milli einstakra foreldra og starfsmanna skólans.
Samþykkt á aðalfundi félagsins þann 1. október 2019
Fréttir úr starfi
Drög -skóladagatal 2023-2024
Nánar