Samstarf skólans og heimila

Gott samstarf skólans og heimila er ein af forsendum góðs skólastarfs og vellíðunar nemenda í skólanum.  Til þess að samskipti verði góð og árangursrík þurfa skólastjórnendur, kennarar og foreldrar að leggja sitt af mörkum.  Foreldrar og forráðamenn bera frumábyrgð á uppeldi barna sinna.  Skólinn aðstoðar þá í uppeldishlutverkinu og skapar menntunartækifæri.  Menntun og velferð nemenda er sameiginlegt verkefni skólans og heimilanna. 

Umsjónarkennari er tengiliður skólans við heimilin.   Hann er í samskiptum við foreldra um þau mál sem snerta einstaka nemendur og annað sem eingöngu snýr að starfi bekkjarins.

Fossvogsskóli er opinn skóli og foreldrar eru ávallt velkomnir. 

 Foreldrastarf í Fossvogsskóla er sem hér segir:

•·         Í upphafi skólaárs eru skólakynningar í öllum árgöngum.  Sérstakt námskeið er haldið fyrir foreldra  nemenda í 1. bekk.

•·         Foreldraviðtöl eru a.m.k. tvisvar á skólaárinu og koma foreldrar ásamt nemanda í viðtalið.

•·         Kennarar hafa fastan símaviðtalstíma.

•·         Á heimasíðunni eru nýjustu fréttir og allar upplýsingar fyrir foreldra. 

•·         Kennarar senda eftir þörfum heim upplýsingar um starfið í bekknum.

•·         Hver hópur er með bekkjarkvöld a.m.k. einu sinni yfir veturinn.

•·         Opið hús og ýmsar skemmtanir þar sem foreldrum er boðið.

•·         Tölvupóstur er nýttur til samskipta við foreldra vegna málefna er varða skólastarf.

•·         Skólastjórnendur bjóða foreldrum hvers árgangs í morgunkaffi einu sinn yfir veturinn.


Skólaráð

Í nýjum lögum um grunnskóla nr. 91/2008 er kveðið á um skipun skólaráðs.  Skólaráð er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélagsins um skólahald.  Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans.  Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið.  Skólaráð skal skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn, tveimur fulltrúum kennara ásamt einum fulltrúa annars starfsfólks í viðkomandi skóla, tveimur fulltrúum nemenda og tveimur fulltrúum foreldra  auk skólastjóra sem stýrir starfi skólaráðs og ber ábyrgð á stofnun þess.

 
Foreldrafélag Fossvogsskóla (FFF)

Við í Fossvogsskóla erum stolt af því öfluga starfi sem fram fer á vegum foreldra og vitum að gott samstarf heimila og skóla er ein af forsendum góðs skólastarfs.  Í Fossvogsskóla hefur foreldrafélag verið starfandi frá árinu 1976. Félagar í því eru allir foreldrar/forráðamenn nemenda í skólanum.  Meginmarkmið félagsins er að vinna að heill og hamingju nemenda skólans og styrkja skólann í hvívetna.   Foreldrafélagið hefur yfirumsjón með starfi bekkjarfulltrúa.

Samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008 setur foreldrafélagið sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð. 

 

Prenta | Netfang