Skip to content

Kennsluhættir

Kennsluhættir í Fossvogsskóla

Í Fossvogsskóla byggir öll kennsla á Aðalnámskrá grunnskóla frá 2013 og skólanámskrá skólans, þar sem gengið er út frá sex grunnþáttum menntunar og eru þeir leiðandi í öllu skólastarfinu. Grunnþættirnir eru; læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð,  lýðræði og mannréttindi,  jafnrétti og  sköpun. Þeir eru sýnilegir í starfsháttum skólans, fjölbreyttum kennsluháttum, samskiptum og skólabrag. Starf skólans er skipulagt á faglegan og víðsýnan hátt út frá markmiðum grunnþáttanna, m.a. með hópvinnu, hringekjum, samkennslu árganga, samþættingu námsgreina, lausnarleitarnámi, þemum þvert á skólastarfið, vali, smiðjum og hefðum í skólastarfi.

Teymiskennsla

Í Fossvogsskóla er litið á hvern árgang sem heild þar sem umsjónarkennarar bera sameiginlega ábyrgð á nemendahópnum og vinna í sameiningu að því að skipuleggja námið. Teymiskennsla stuðlar að sveigjanleika í kennslu, faglegum vinnubrögðum, fjölbreytni í kennsluháttum og auknum samskiptum á milli kennara varðandi ýmsa þætti skólastarfsins eins og námstilhögun, agamál og samskiptamál í nemendahópnum. Teymiskennsla hefur ýmsa kosti fyrir nemendur; þeir vinna á hverju ári með öllum nemendum innan árgangsins og þvert á árganga, læra að vinna í og að taka tillit til margbreytilegs nemendahóps og öðlast þannig leikni í samvinnu á sama tíma og þeir þroska með sér samkennd og tillitssemi. Þá er það talinn kostur að fleiri en einn umsjónarkennari þekki til styrkleika nemandans bæði hvað varðar námslega og félagslega stöðu því það ýtir undir einstaklingsmiðaða nálgun í starfi með hann. Einnig er talið gott fyrir nemendur að geta leitað með sín mál til fleiri en eins umsjónarkennara.

Einstaklingsmiðað nám

Í Fossvogsskóla er áhersla lögð á einstaklingsmiðað nám þar sem leitast er við að koma til móts við  ólíkar þarfir, styrkleika og áhugasvið nemenda. Því er náð með fjölbreyttum kennsluaðferðum og starfsháttum, samvinnu, samkennslu og þematengdu námi. Nemendur vinna námstengdar áætlanir, viku- eða hálfs mánaðarlega, og áhersla er á að nemendur skili áætlunarvinnu og sýni vandvirkni í starfi sínu. Námáætlun er unnin með það að markmiði að þjálfa nemendur í að skipuleggja nám sitt, gera þá meðvitaða um eigið nám og ábyrga fyrir því á sama tíma og hún byggir upp sjálfsaga í námi. Kennarar styðja nemendur í áætlunarvinnu með leiðsagnarmati og veita þeim almennt aðhald í námi. Áhersla er lögð á samstarf við foreldra á einstaklingsgrunni. Margir nemendur eru færir um að sinna og halda utanum nám sitt. Aðrir þurfa stuðning við námið til að námsframvinda verði í samræmi við getu til náms. Í þeim tilfellum eru foreldrar í samstarfi við umsjónarkennara lykillinn að farsælli skólagöngu þar sem námstilhögun er aðlöguð að einstaklingsbundnum þörfum nemandans.

Leiðsagnarnám

Í Fossvogsskóla er áherslan með leiðsagnarnámi sett á nemendur; að þeir taki ábyrgð á námi sínu, þekki markmið sín í námi og skilji hvað góður námsárangur felur í sér. Allir kennarar setja fram skýr námsmarkmið sem taka tilliti til aldurs og þroska nemenda og vekja þannig áhuga þeirra á því viðfangsefni sem unnið er með hverju sinni. Þannig verður námið merkingarbært fyrir nemendum og þeir fá aðhald í því með reglulegri endurgjöf og leiðsögn á námsferlinum. Leiðsagnarnám kallar almennt á góða námsmenningu sem ýtir undir seiglu nemenda í námi.

UT í kennslu

Í Fossvogsskóla er upplýsinga- og tæknimennt þverfagleg námsgrein sem tengist inn í allar  námsgreinar skólans. Hún er kennd í lotum og markmiðið er að nemendur öðlist almenna tæknifærni og þjálfi tækni- og upplýsingalæsi sitt þannig að þeir geti nýtt sér það í námi sínu. Í upplýsinga- og tæknimennt er áhersla lögð á fjölbreytta og skapandi kennsluhætti, m.a. með vinnu í spjaldtölvum og í svokölluðum snillismiðjum.

Smiðjur/Valsvæði

Í Fossvogsskóla eru smiðjur eða valsvæði fastir liðir í stundaskrá nemenda. Áhersla er lögð á samþættingu námsgreina og fjölbreytta kennsluhætti með margbreytilegum og áhugavekjandi viðfangsefnum þar sem nemendur vinna oftast í aldursblönduðum hjópum að tilteknu námsmarkmiði. Þemaverkefni í smiðjum eru oft sett upp sem stöðvavinna  í hringekjuformi, þar sem nemendahópar fara með skipulögðum hætti í gegnum allar stöðvarnar.  Á valsvæðum gefst nemendum kostur  á að  velja sér fjölbreytt áhugasviðsmiðuð viðfangsefni undir handleiðslu kennara.

Samþætting námsgreina

Í Fossvogsskóla er áhersla lögð á að auka samþættingu námsgreina. Þá eru viðfangsefni hverju sinni  sett í breiðara samhengi en almennt gerist. Á þennan hátt öðlast nemendur oft betri og dýpri skilning á námi sínu í heild og víðsýni þeirra eykst.

Útinám

Fossvogsskóli hefur verið Grænfánaskóli frá árinu 2002. Hann leggur áherslu á umhverfis- og náttúrumennt og því er útikennsla eðlilegur hluti af skólastarfinu. Í útikennslu er náttúran almennt viðfangsefnið þar sem efniviður kennslunnar er sóttur í námsmarkmið skólanámskrárinnar. Kennsluaðferðir eins og lausnarleitarnám og uppgötvunarnám eru höfð að leiðarljósi þar sem  nemendur leita sjálfir lausna í námi sínu á sama tíma og þeir uppgötva nýjar víddir í eigin námi. Samþætting námsgreina er heppileg nálgun í allri útikennslu.

Salur/Samvera/Söngur

Í Fossvogsskóla standa nemendur reglulega fyrir skemmtun eða uppákomu á sal skólans undir leiðsögn umsjónarkennara. Hver árgangur undirbýr sal þar sem nemendur fá þjálfun í að koma fram, tjá sig og túlka efni á sviði í áheyrn samnemenda, starfsfólks skólans og foreldra.

Í Fossvogsskóla er sameiginleg söngstund einu sinni í viku hjá nemendum á yngsta stigi og kórstarf er einu sinni í viku fyrir nemendur á miðstigi.

Uppeldi til ábyrgðar

Fossvogsskóli vinnur út frá uppbyggingarstefnunni Uppeldi til ábyrgðar – Uppbygging sjálfsaga (Restitution – Self Discipline) í uppeldisstefnu sinni. Hún miðar að því að því að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga, að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum og læra af mistökum í  óæskilegum samskiptum sínum við aðra á sama hátt og því er veitt athygli þegar nemendur eiga í góðum samskiptum sín á milli. Í Uppeldi til ábyrgðar eru reglur lagðar til hliðar og þess í stað rætt um hlutverk einstakra aðila í samskiptum á milli aðila. Starfsfólk skólans og nemendur leggja sig fram við að fylgja eftir Uppeldi til ábyrgðar í samskiptum sín á milli. Hver árgangur gerir bekkjarsáttmála í upphafi skólaárs og ígrundar og endurskoðar hann reglulega yfir skólaárið.

Heilsueflandi skóli

Fossvogsskóli er lýðheilsuskóli sem tekur þátt í verkefni Landlæknisembættisins Heilsueflandi grunnskóli. Skólinn leggur því áherslu á að í anda lýðheilsuskóla skilji nemendur og tileinki sér í lífinu  þau gildi og viðmið sem hollar lífsvenjur færa þeim með því að fræðast um mikilvægi hreyfingar, hvíldar, hreinlætis og góðrar næringar.

Leikjavinir

Nemendum er gefinn kostur á að taka þátt í skipulögðu leikjastarfi í frímínútum undir handleiðslu starfsfólks. Þannig eru nemendur hvattir til meiri þáttöku og afþreyingu í fríminútun en með því er leitast við að styrkja félagsfærni nemenda og jákvæðan skólabrag. Markmiðið er að allir nemendur skólans hlakki til að mæta í skólann alla daga.

Hefðir

Í Fossvogsskóla hafa í gegnum tíðina ýmsar hefðir skapast sem eru til þess gerðar að brjóta upp hefðbundið skólastarf með gleði, skemmtun og fræðslu. Hér má meðal annars nefna: Samveru á sal, bangsadag, umhverfisdaga, jólaskemmtanir, skólabúðaferð á Reyki, öskudag, Fossóhæf, hjóladaga, furðufatadag, þemadaga að vori, Hörpulok, vettvangsferðir og m