Skip to content

Námsmat í Fossvogsskóla

Í Fossvogsskóla er leitast við að námsmat sé fjölbreytt og leiðbeinandi jafnt yfir allan veturinn þannig að nemendur eigi kost á að bæta sig yfir allt skólaárið.

Formlegt námsmat í Fossvogsskóla fer fram þrisvar sinnum á ári:

Það fyrsta fer fram að hausti en þá hittast nemandi, foreldrar/forráðamenn og umsjónarkennari og ræða saman. Aðaláhersla er lögð á  líðan nemandans í skólanum og félagahópnum, námslega stöðu almennt og markmið nemandans í námi og starfi. Viðtalið byggir á svokölluðu frammistöðumati á Mentor sem nemandi fyllir út heima með foreldrum/forráðamönnum. Eins er farið yfir stöðu lesturs samkvæmt lesferilsprófum frá Menntamálastofnun.

Í janúar er vitnisburður nemenda birtur nemendum og foreldrum/forráðamönnum með frammistöðumati á Mentor í öllum námsgreinum. Nemendur eru auk þess beðnir um að meta námslega stöðu sjálfir og svara spurningum um líðan og hegðun. Vitnisburði og niðurstöðum frammistöðumats er síðan fylgt eftir með viðtölum við kennara. Áhersla er lögð á að allir nemendur geti bætt sig í námi og starfi allt fram að lokamati við lok skólaárs.

Að vori fá nemendur afhent vitnisburðarblað um námslega stöðu í öllum námsgreinum.

Í Fossvogsskóla er vitnisburður gefinn í umsögnum. Umsagnir byggja á símati og lokamati og liggja á eftirfarandi kvarða: Mjög gott – Gott – Nokkuð gott – Sæmilegt.

Mjög gott hlýtur sá nemandi sem hefur full tök á þeim námsþáttum sem unnið er með samkvæmt námskrá.

Gott hlýtur sá nemandi sem hefur góð tök á þeim námsþáttum sem unnið er með samkvæmt námskrá.

Nokkuð gott hlýtur sá nemandi sem þarfnast enn frekari þjálfunar til að ná tökum á þeim námsþáttum sem unnið er með samkvæmt námskrá.

Sæmilegt hlýtur sá nemandi sem ekki hefur náð tökum á námsþáttum sem unnið er með samkvæmt námskrá.