Kæru foreldrar nemenda í Fossvogsskóla,
Þá styttist heldur í sumarfríinu. Skólinn hefst á mánudag, 23. ágúst, samkvæmt stundatöflu. Undan-farnar vikur hefur verið unnið að undirbúningi skólastarfs í Fossvogsskóla af fullum krafti.
Á þessu hausti verður ekki um formlega skólasetningu að ræða heldur koma nemendur á mánudag tilbúnir til náms og leiks. Skólastarfið hefst kl. 8:10 á mánudag þegar nemendur í 5., 6. og 7. bekk mæta í rútur við Fossvogsskóla. Rúturnar verða komnar í Korpuskóla kl. 8:30 þegar formlegur skóladagur hefst. Þær fara svo til baka kl. 14:20 þegar formlegum skóladegi lýkur og verða komnar í Fossvoginn um kl. 14:40.
Nemendur í 1. – 4. bekk mæta á skólalóð Fossvogsskóla kl. 8:30 þar sem umsjónarkennarar þeirra taka á móti þeim og fylgja þeim á sín svæði í Útlandi og í Víkingsheimilinu.
Líkt og kom fram í upplýsingapósti fyrr í sumar þá verður skólastarfið í meginatriðum á tveimur stöðum í vetur; annars vegar í Fossvogi (í færanlegum kennslustofum og í Útlandi) og svo hins vegar í Korpuskóla. Fyrst um sinn verðum við þó á þremur stöðum sem eru:
- Útland, þar sem 1. bekkur verður.
- Víkingsheimilið, þar sem 2. til 4. bekkur verða fram til 16. september. Hjá Víkingum höfum við neðri hæðina til umráða. Hér erum við að tala um tengibygginguna og Berserkjasalinn auk þess sem við munum hafa aðgang að íþróttasalnum þegar hann er ekki í notkun. Við skiptum nemendum þannig niður að 2. og 3. bekkur verða í tengibyggingunni og að 4. bekkur verður í Berserkjasalnum.
Við höfum verið í mjög góðu samtali við forsvarsmenn Víkings um leiðir fyrir báða aðila til að vinna saman í húsinu á tímum hertra sóttvarna og hólfunar. Samkomulag er um að verja af kappi allt íþróttastarf Víkings sem er á góðri siglingu í knattspyrnunni. Á sama tíma og við hugum að því að verja íþróttastarf Víkings þá huga þeir að velsæld okkar. Þannig hagnast báðir aðilar.
Í Víkingsheimilinu verður skólastarf hefðbundið og list- og verkgreinakennarar koma þangað til að vinna með nemendum í þeirra sérgreinum þessar þrjár vikur sem við verðum þar. Það kann að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir að vera í Víkingsheimilinu með starfsemi 2. til 4. bekkjar og það er skiljanlegt. Við þurfum því að hafa í huga að skólinn er annað og meira en húsnæðið sem hýsir starfsemina; hann er fyrst og fremst mannauðurinn sem þar er; nemendur, starfsfólkið og svo þið foreldrarnir.
- Korpuskóli, þar sem 5. til 7. bekkur verður á skólaárinu. Nú höfum við allt húsnæðið til umráða fyrir um helming þess fjölda nemenda sem var í húsnæðinu undir vor á síðasta skólaári. Í Korpuskóla verða nemendur sem staðsettir eru þar í list- og verkgreinum og skólastarf allt hefðbundið þar sem kröfum aðalnámskrár er mætt.
Í sumar hefur staðið yfir uppbygging í Korpuskóla í framhaldi af yfirferð Eflu um húsnæðið. Í ljós kom að rakaskemmdir voru á fleiri stöðum en fyrsta yfirferð um síðustu páska sýndi. Allt rakaskemmt efni hefur verið fjarlægt úr húsnæðinu. Öll uppbygging hefur verið undir leiðsögn og stjórn Eflu. Um helgina verður húsnæðið þrifið þannig að skólastarf geti hafist á mánudag.
Íþrótta- og sundiðkun verður áfram með hefðbundnum hætti. Íþróttir verða úti tvisvar í viku fram til 1. nóvember og eftir 1. apríl. Sundið verður áfram í Laugardalnum þar sem nemendur í öllum árgöngum fara í sund einu sinni í viku allt skólaárið. Við biðjum ykkur vinsamlega um senda börnin ykkar með sundföt, sundgleraugu og handklæði þá daga sem þau eru í sundi.
Sunddagskrá:
Þriðjudagar: 5. bekkur (rútur fara 8:10 og 8:50 frá Fossvogsskóla), 1. bekkur. 4. bekkur og 7. bekkur (hálfur hópur)
Föstudagar: 6. bekkur (rútur fara 8:10 og 8:50 frá Fossvogsskóla), 2. bekkur, 3. bekkur og 7. bekkur (hálfur hópur)
Í þessari viku hefur samhliða hefðbundnu undirbúningsstarfi grunnskólans farið fram endurmenntun starfsfólks sem kemur vel undan sumri og er meira en tilbúið til að starfa. Hér viljum við sérstaklega nefna nýja nálgun á tileinkun náms á fyrstu tveimur árum grunnskólans þar sem við erum komin í samstarf við dr. Hermund Sigurmundsson og Svövu Þ. Hjaltalín um leiðir. Þá fengum við frábært erindi um áhrif jákvæðrar sálfræði á okkur sjálf og þá um leið á skólastarfið. Á komandi skólaári munum við vinna áfram að góðu samstarfi við framangreinda aðila með það að markmiði að efla, þróa og styrkja skólastarfið.
Mannaráðningar hafa gengið ótrúlega vel og skólinn er vel mannaður. Við stjórnendur höfum í sumar átt ótal samtöl við hæfileikaríka umsækjendur og það er ótrúlega gaman að fá nýtt fólk til starfa með okkur og bjóðum við þá alla hjartanlega velkomna til okkar.
Stundatöflur nemenda munu birtast á mentor í lok þessarar viku eða um helgina. Á mentor er einnig hægt að skoða mætingar, veikindi og seinkomur, dagbókarfærslur sem umsjónarkennarar setja inn, heimanám og niðurstöður kannana svo fátt eitt sé nefnt. Við biðjum ykkur vinsamlega um að fara í það minnsta einu sinni í viku inn á mentor. Þá er gott að kenna börnunum að nota einnig mentor.
Að venju sér skólinn öllum nemendum fyrir ritföngum sem þeir þurfa að hafa við hönd í námi sínu. Nú á tímum sóttvarna og hólfana fær hver nemandi til umráða ritföng sem eru sérmerkt honum. Með þessu móti hindrum við það að ritföng gangi á milli margra barna. Við munum hólfa nemendur eins og hægt er fyrstu vikurnar og vinnum að því að koma í veg fyrir smit eins og framast er kostur. Kjósi foreldrar að nemendur komi með sín eigin ritföng sem eru sérmerkt að heiman er það sjálfsagt mál. Við biðjum ykkur þá að brýna fyrir börnum ykkar mikilvægi þess að deila þeim ekki með öðrum. Kjósi nemendur að bera grímur á skólatíma er það velkomið og best að koma með þær að heiman.
Ljóst er að nemendur fara á milli staða í rútum. Þetta á bæði við um ferðir á milli Fossvogsskóla og Korpuskóla sem og ferðir í sundið. Nemendur munu alltaf sitja í sömu sætum í rútuferðum og biðjum við ykkur að ræða við börnin ykkar um að það. Þetta gerum við til að gæta að heilsu þeirra og farsæld og minnka um leið líkur á að senda þurfi marga í sóttkví á sama tíma ef til þess kemur.
Það er vissulega að mörgu að hyggja þegar skólastarf hefst að nýju og viljum við biðja ykkur um að nesta börnin ykkar fyrir millimál eins og vani er. Nemendur munu fá heitan mat frá og með fyrsta skóladegi, mánudeginum 23. ágúst.
Á föstudag, 20. ágúst kl. 8:30, verðum við með fund með foreldrum verðandi 1. bekkjar. Fundurinn mun fara fram í hátíðarsal Víkings og verður einnig boðið upp á hann á Teams.
Við hlökkum til samstarfs við ykkur á nýju skólaári og bjóðum ykkur og börnin ykkar velkomin til starfa og kærar kveðjur,
Ingibjörg Ýr og Árni Freyr,
skólastjórnendur í Fossvogsskóla