Saga skólans

Article Index

Hvað er opinn skóli?
Þegar svara á þessari spurningu kemur einkum tvennt upp í hugann, annars vegar sjálft húsnæðið og hins vegar það starf sem fram fer innan veggja skólans. Hér á eftir verður stiklað á stóru í sögu skólans og um leið reynt að svara ofangreindri spurningu.

Sögulegt yfirlit
Hugmyndir um opinn skóla byggja á aldagömlum kenningum þeirra skólamanna sem lagt hafa áherslu á að nemendur læri að afla sér þekkingar á eigin spýtur í stað þess að vera mataðir á staðreyndum og utanbókarlærdómi. Aðferðirnar, þ.e. hvernig numið er, skipta því meira máli en inntakið, þ.e.a.s hvað numið er. Stefnt er að því að nemendurnir verði sjálfbjarga í námi, nýti umhverfið til náms og verði færir um að bregðast við nýjum aðstæðum. Hlutverk kennarans er að þjálfa nemendur í að ná þessum markmiðum, hvetja þá til að leita upplýsinga og vinna úr þeim. Nemendur eru ólíkir, hafa mismunandi þarfir og áhugamál og þurfa að geta valið úr mismunandi viðfangsefnum og námsaðferðum. Það er því mikilvægt að þeir séu virkir, temji sér sjálfstæð vinnubrögð og geti byggt ofan á það sem áður hefur verið numið. Ýmsir merkir skólamenn, uppeldisfræðingar og sálfræðingar hafa í gegnum tíðina lagt áherslu á ýmsa þá þætti sem opni skólinn byggir á og eiga það sameiginlegt að leggja megináherslu á að nemendur á hverjum tíma verði færir um að kljást við viðfangsefni síbreytilegs þjóðfélags.

Opinn skóli á sér rætur í ýmsum framsæknum kenningum um nám og kennslu. Oft er erfitt að draga skýr mörk milli opins skóla annars vegar og hefðbundins hins vegar þar sem sumir þættir finnast hjá báðum.

Í bókinni Um opinn skóla: Fossvogsskóli, bls. 7 - 8, segir á þessa leið:

  • Einstaklingar eru ólíkir og reynt að koma til móts við þarfir og hæfileika hvers og eins. Nemendur geta valið um sambærileg viðfangsefni en þurfa ekki allir að fást við það sama í senn.
  • Lögð er áhersla á að tengja námið reynslu og umhverfi nemenda.
  • Litið er á nemendur sem sjálfstæða einstaklinga með ákveðin réttindi og skyldur við sjálfa sig og aðra og þeim er sýnt mikið traust.
  • Nemendur eiga að vera virkir í námi, sjálfstæðir, geta aflað sér upplýsinga og leyst verkefni á eigin spýtur.
  • Lögð er áhersla á að viðfangsefni séu áþreifanleg, áhugaveljandi og margbreytileg og gefi kost á fjölbreyttum vinnubrögðum.
  • Reynt er að hafa starfsdaginn sem samfelldastan.
  • Lögð er áhersla á að húsnæðið sé vistlegt og hlýlegt.
  • Hlutverk kennarans er að skipuleggja, leiðbeina og aðstoða ásamt því að miðla þekkingu.
  • Samvinna kennara er mikilvæg við að móta skólastarfið og leysa þau vandamál sem upp kunna að koma.

Börn þroskast mishratt og hafa mismunandi reynslu þegar þau hefja skólagöngu. Í opna skólanum er lögð áhersla á að laga starfið að þroska og þörfum hvers og eins og veita hverjum og einum viðfangsefni við hæfi.

Í nútímasamfélagi þurfa einstaklingar að geta brugðist við nýjum eða breytilegum aðstæðum á réttan hátt og vegið og metið þau áhrif sem þeir verða fyrir. Talsmenn opna skólans leggja ríka áherslu á að viðfangsefni séu sótt í umhverfi nemenda. Vettvangsferðir gegna því mikilvægu hlutverki svo og umræður um það sem efst er á baugi hverju sinni. Í opnum skóla er lögð áhersla á að nemendur sýni hver öðrum umburðarlyndi og efli þannig félagslega hæfni sína. Þeir eru líka þjálfaðir í að bera ábyrgð á námi sínu m.a. með áætlanagerð. Nemendur þurfa að fá tækifæri til að tjá hug sinn og eiga samskipti við aðra. Þeir útbúa því margs konar dagskrárefni og flytja fyrir aðra, gera grein fyrir niðurstöðum úr hópvinnu eða koma skoðunum sínum á framfæri í máli, myndum eða með leikrænni tjáningu. Í heimastofum nemenda eru svokallaðir heimakrókar þar sem fram fara umræður, innlögn, söngur, sögulestur og margt fleira.

Fylgismenn opna skólans leggja áherslu á að börn séu forvitin og hafi þörf fyrir að kanna veröldina og skilja umhverfi sitt. Þeir telja að hlutverk skólans sé að skapa nemendum skilyrði til að svala þekkingarþorsta sínum og reyna hlutina sjálfir. Áþreifanleg og áhugaveljandi viðfangsefni eru því æskileg svo að nemendur geti beitt rökhugsun og nýtt sér þekkingu sína og leikni við lausn þeirra. Leikir og námsspil, þar sem hreyfing, skynjun, hugsun og samvinna fara saman, gegna þýðingarmiklu hlutverki sem og ýmsir hlutir og önnur námsgögn sem efla skynjun nemenda og auðvelda þeim að skilja efnisleg fyrirbæri og hugtök. Nemendur eru virkir í þekkingarleit sinni, afla upplýsinga, vega og meta og minna þannig á vísindamenn.

Vistlegur vinnustaður hefur jákvæð áhrif á þá sem þar starfa. Í opna skólanum er lögð rík áhersla á að gera umhverfið vistlegt en jafnframt að það hvetji til sjálfstæðra vinnubragða. Vistarverur eru því skreyttar verkum nemenda, blómum og hverju því sem skapar hlýlegt andrúmsloft. Námsgögn, verkefni og leiðbeiningar um sjálfsnám er aðgengilegt og borðum gjarnan raðað upp þannig að samskipti og hópvinna verði auðveld og öllum líði vel.

Hlutverk kennarans í opna skólanum er einkum að skipuleggja skólastarfið, útbúa og útvega verkefni og önnur gögn, leiðbeina nemendum og aðstoða þá. Athyglinni er beint að einstaklingnum eftir því sem hægt er og þarf kennarinn því að gera sér grein fyrir þörfum hvers og eins. Lögð er áhersla á að nemendur geti unnið saman og fundið sameiginlega lausn. Kennarinn reynir að vekja áhuga nemendanna, vísa þeim á hjálpargögn, hlusta á þá, ræða málin og aðstoða eftir þörfum. Kennarinn þarf að vera fús að tileinka sér nýjar hugmyndir, geta tekið gagnrýni og vera tilbúinn að miðla öðrum af reynslu sinni. Samstarf kennara er lykilatriði í opnum skóla og í því verða allir að taka virkan þátt, geta myndað sér skoðun og rökstutt hana og fallist á málamiðlun séu skoðanir skiptar.
Kennarinn þarf að hafa yfirsýn yfir nemendur og stöðu hvers og eins í náminu, ræða við þá um námið og athuga hvernig miðar, hvetja þá áfram og gera kröfur miðað við þroska og getu hvers og eins. Markmiðið er að nemendur verði sjálfstæðir og sjálfbjarga og beri ábyrgð á námi sínu.

Skólaárið 1971 - 1972 var fyrsta starfsár Fossvogsskóla en skólinn var settur 9. október 1971. Fyrsta starfsárið voru aðeins tveir árgangar í skólanum, sjö og átta ára börn, og var þá kennt með hefðbundnu sniði. Á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar fóru af stað hræringar bæði austan hafs og vestan í þá átt að breytinga á skólahúsnæði og kennsluháttum væri þörf. Voru þá víða byggðir opnir skólar og við hönnun Fossvogsskóla var frá upphafi gert ráð fyrir að þar gæti farið fram nám í anda opins skóla. Má í því sambandi nefna að hægt er að breyta stærð kennslurýma með rennihurðum, bókasafn er á opnu svæði og í fyrsta byggingaráfanga skólans er stórt alrými sem allar almennar kennslustofur opnast út í og hægt er að nýta á ýmsa vegu.

Skólahúsið var reist í þremur áföngum. Sá fyrsti, svokallað Vesturland, 1970 - 1971, annar áfangi, byggður 1974 - 1976, hýsir skrifstofur, heilsdagsskóla, mötuneyti og ýmsar sérgreinar og þriðji áfangi, Austurland, var byggður 1998 - 1999. Í Vesturlandi hafa þrír yngstu árgangarnir heimastofu sína en hinir fjórir eru til húsa í Austurlandi. Þar er einnig bókasafn og þrjár sérgreinastofur.
Fyrstu tvo áratugina bjó skólinn við mikil þrengsli en reynt var að leysa brýnasta vandann með lausum kennslustofum sem stóðu við skólann frá 1974 og allt til ársins 2000. Lengi þurfti að tvísetja í allar stofur. Skólahúsnæðið er vistlegt og gefa verk nemenda ásamt fjölda blóma umhverfinu hlýlegan blæ. Nemendafjöldi hefur verið breytilegur. Flestir voru í skólanum skólaárið 1976- 1977 en þá voru nemendur 752 talsins.

Að fyrsta starfsárinu loknu var ákveðið að reyna opna starfshætti í Fossvogsskóla undir forystu Kára Arnórssonar, þáverandi skólastjóra. Með opnum starfsháttum var stefnt að því að koma meira til móts við einstaklinginn en tök eru á í hefðbundnu skólastarfi, nemendur öðluðust meiri ábyrgðartilfinningu gagnvart námi sínu, frumkvæði og sköpunargáfa þeirra fengi að njóta sín, þeir fengju meira val í sambandi við viðfangsefni og vinnuaðferðir og þannig stefnt að alhliða þroska hvers og eins. Samþætting, aldursblöndun og samfelldur skóladagur voru veigamikil atriði. Mikil áhersla var lögð á samstarf og virkni innan kennarahópsins og heimsóttu nokkrir kennarar skóla í Englandi til að kynna sér starf í opnum skólum auk þess sem Kári Arnórsson dvaldi þar heilt skólaár í sömu erindagjörðum.

Haustið 1972 hófst síðan starf eftir opnu kerfi hjá sex til átta ára nemendum en níu ára nemendur fóru í Breiðagerðisskóla. Þessir elstu nemendur höfðu vanist bekkjarkerfinu og því talið æskilegt að þeir stunduðu nám með sama hætti áfram. Þetta fyrsta starfsár í opnu kerfi voru tiltölulega fáir nemendur í skólanum en þeim fjölgaði síðan mjög hratt og hafði það margvíslega erfiðleika í för með sér bæði vegna húsnæðisskorts og nýrra starfsmanna sem ókunnugir voru þessum starfsháttum. Árið 1974 var síðan ákveðið að skólinn skyldi hýsa bæði yngsta stig og miðstig en að loknum 7. bekk fara nemendur í Réttarholtsskóla.

Fyrstu árin var Fossvogsskóli tilraunaskóli og hafði sem slíkur nokkurn kennslukvóta umfram aðra skóla í Reykjavík. Var þar verið að koma til móts við mikla vinnu kennara við að byggja upp starfið. Haustið 1973 var aðstoðarfólk ráðið að skólanum. Um var að ræða tvær stöður og skyldu þær notaðar til að sinna ýmsum störfum sem ekki teljast bein kennsla heldur margvísleg aðstoð við verklega vinnu á valsvæðum, frágang verkefna og fleira sem til féll.

Prenta | Netfang