Stefna skólans

Í Fossvogsskóla er mikil áhersla lögð á einstaklingskennslu og að koma til móts við mismunandi þarfir, hæfileika og áhuga hvers og eins. Reynt er að fá nemendur til að bera ábyrgð á eigin námi, auka sjálfstæði þeirra og efla frumkvæði. Þeir fá að velja sér viðfangsefni og verða því virkari. Þeim er blandað saman í hópa, bæði fasta námshópa og einnig á valsvæðum, þar sem blandast saman nemendur úr tveimur til fjórum árgöngum. Það er stefna skólans að þjálfa nemendur í framsögn og flutningi efnis og fer sú þjálfun fram „á sal" þar sem nemendahópar flytja efni fyrir áheyrendur úr öðrum hópum. Heildarverkefni eru á stefnuskrá skólans enda hefur skólinn það markmið að vera sjálfstæður í verkefnavali og losa nemendur frá hefðbundnum námsbókum án þess að draga úr kröfum um gæði eða skil á vinnu.

Meginmarkmið eru

 1. að leitast við að koma til móts við þarfir nemenda, stuðla að alhliða þroska hvers og eins og gefa nemendum kost á að vinna hver með sínum hraða
 2. að nemendum líði vel í skólanum
 3. að stuðla að jákvæðum samskiptum og efla samábyrgð og samstöðu meðal nemenda og styrkja jákvæða sjálfsmynd þeirra
 4. að glæða þekkingarleit og örva skapandi starf
 5. að efla og auka samstarf heimilis og skóla
 6. að nemendur temji sér sjálfstæð vinnubrögð og ábyrgð á eigin námi
 7. að efla gagnrýna hugsun nemenda
 8. að búa nemendur undir líf og starf í íslensku þjóðfélagi og að þeir kunni skil á sögu þess og sérkennum
 9. að miða nám og námsmat við forsendur hvers nemanda
 10. að nemendur tileinki sér hollar lífsvenjur
 11. að stuðla að því að nemendur þroski með sér víðsýni og ábyrgð í umgengni við allt líf og umhverfi og efli skilning sinn á mannlegum kjörum og virðingu fyrir umhverfi
 12. að stuðla að aldursblöndun nemenda á svæðum og í verkefnavinnu
 13. að stuðla að góðu samstarfi starfsmanna.

Leiðir
Leitast er við að ná meginmarkmiðunum með því að:

 1. hafa fjölbreytt námsgögn í boði, ræða við nemendur um reynslu þeirra og hugmyndir og gefa þeim tækifæri til að ræða sín á milli, sjá til þess að hver nemandi fái viðfangsefni við hæfi, sýna sveigjanleika og umburðarlyndi í samskiptum við nemendur
 2. sýna nemendum virðingu og umhyggju, gera umhverfi nemenda hlýlegt og vinalegt
 3. gefa nemendum tækifæri til að ræða saman (bekkjarfundir), hjálpa þeim til að komast að sameiginlegum niðurstöðum og að bera ábyrgð á þeim, hafa fjölbreytt vinnubrögð, t.d. hópvinnu, hvetja nemendur og benda þeim á það sem vel er gert
 4. þjálfa nemendur í að leita sér þekkingar upp á eigin spýtur og að nemendur fái útrás fyrir forvitni sína og sköpunargleði
 5. kynna foreldrum skólastarfið með viðtölum og heimsóknum þeirra í skólann
 6. nemendur geri áætlanir og hafi þannig áhrif á eigið nám, veita nemendum tækifæri til að leita sér þekkingar á eigin forsendum, hafa aukið val
 7. þjálfa nemendur í að draga sjálfstæðar ályktanir og bregðast við nýjum aðstæðum, skoða viðfangsefni frá mörgum hliðum á gagnrýninn hátt
 8. kenna undirstöðugreinar auk annarra greina í Aðalnámskrá, kenna nemendum að virða lýðræðislegar reglur, kenna nemendum að greina mun á réttu og röngu, kynna nemendum réttindi og skyldur sem gilda í okkar þjóðfélagi
 9. fylgjast vel með stöðu hvers nemanda og meta reglulega í viðurvist hans, hafa fjölbreytt verkefni við hæfi hvers og eins, setja námsmat fram sem umsögn fyrir hvern og einn
 10. fræða nemendur um gildi hreyfingar, hvíldar, hreinlætis, góðrar næringar og óspilltrar náttúru, nemendur fái tækifæri til líkamsþjálfunar, útivistar og umgengni við náttúruna
 11. leggja áherslu á að allir hafi jafnan rétt til að hafa skoðanir og virði rétt annarra til hins sama, opna augu nemenda fyrir sínu nánasta umhverfi og gildi þess, nemendur kynnist mismunandi menningu og kjörum þjóða og sameiginlegum menningarverðmætum alls mannkyns
 12. binda svæðatíma á töflu, gæta þess að minnst tveir aldursflokkar vinni saman á svæðum, hafa fjölbreytt og misþung viðfangsefni og hafa val um vinnu á þeim (ekki krefjast sömu útfærslu hjá öllum)
 13. binda samstarfs- og kennarafundi á töflu.

Prenta | Netfang