
Velkomin á heimasíðu
Fossvogsskóli
Verið hjartanlega velkomin á heimsíðu Fossvogsskóla.
Skólinn tók til starfa 9. október 1971 og var áhersla lögð á opna kennsluhætti (Open Plan) þar sem hefðbundið bekkjarkerfi var brotið upp. Áhersla var lögð á að koma til móts við nemandann sem einstakling, auka ábyrgðartilfinningu hans gagnvart náminu, efla frumkvæði og sköpunargáfu með því að gefa nemendum meira val í sambandi við viðfangsefni og vinnuaðferðir. Mikil áhersla var lögð á samþættingu námsgreina, aldursblöndun og samstarf og virkni innan kennarahópsins
Fossvogsskóli er hverfisskóli fyrir 6 – 12 ára börn í Blesugrófar- og Fossvogshverfi. Skólaárið 2018 – 2019 starfa 360 nemendur og 50 starfsmenn í skólanum. Skólinn er staðsettur í fallegu umhverfi í Fossvogsdalnum. Mikil hjólamenning einkennir skólasamfélagið enda liggja greiðar göngu- og hjólaleiðir frá skólanum í Elliðaárdalinn og í Nauthólsvíkina sem eru ein fallegustu útivistarsvæði Reykjavíkurborgar.
Umhverfis- og lýðheilsumál skipa stóran sess í Fossvogsskóla og hefur skólinn flaggað Grænfánanum frá árinu 2002. Fossvogsskóli vinnur í anda uppeldisstefnunnar Uppeldi til ábyrgðar og rík áhersla er lögð á styrkja félagsfærni nemenda með jákvæðum og góðum samskiptum meðal nemenda og starfsfólks.
Vinátta, virðing og vellíðan eru gildi skólans. Með vináttu að leiðarljósi hlustum við á hvert annað, sýnum samhygð, umhyggju og hjálpsemi gagnvart hvert öðru. Áherslan á virðingu í skólastarfinu birtist m.a. í samskiptum og teymisvinnu hverskonar og fjölbreyttu og skapandi námi þar sem leitast er við að samþætta námsgreinar og blanda nemendum saman með ýmsum hætti. Vellíðan tryggjum við með því að hreyfa okkur, mynda tengsl, taka eftir hlutunum í kringum okkur, gefa af okkur og halda áfram að læra með því að prófa eitthvað nýtt.
Stjórnendur skólans
Skólastjóri Fossvogsskóla er Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir Netfang: Hafdis.Gudrun.Hilmarsdottir@rvkskolar.is
Aðstoðarskólastjóri er María Helen Eiðsdóttir Netfang: maria.helen.eidsdottir@rvkskolar.is