Skip to content

Skóla- og frístundasvið setur grunnskólunum að gera verklagsreglur um samskipti foreldra og kennara.
Viðmið um samskipti foreldra og kennara í Fossvogsskóla eru í samræmi við viðmið Skóla- og
frístundasviðs Reykjavíkurborgar um samskiptamáta milli heimila og skóla. Viðmiðin voru gerð haustið
2017. Haft var samráð við foreldrafélagið og viðmiðin samþykkt í skólaráði.

Tölvupóstur
• Samskipti í gegnum tölvupóst og síma er aðalsamskiptamáti kennara við foreldra.
• Kennarar opna tölvupósta a.m.k. einu sinni á dag, staðfesta móttöku á erindi foreldra og
leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst.
• Gert er ráð fyrir að tölvupóstum sé svarað á hefðbundnum vinnutíma.
• Ætlast er til að tölvupóstar séu eingöngu notaðir til að senda upplýsingar eða spyrjast fyrir
um hagnýt mál.
• Viðkvæm mál skal fjalla um með öðrum hætti en í tölvupósti.

Facebook og aðrir samskiptamiðlar
• Kennarar stofna ekki sérstakan facebookhóp fyrir foreldra barna í umsjón, heldur senda
tölvupóst með upplýsingum eða hafa samband símleiðis.
• Ekki er ætlast til að kennarar tengist facebooksíðum árganga.
• Almenna reglan er sú að starfsmenn skólans og foreldrar og/eða nemendur eru ekki vinir
á facebook.
• Foreldrar þurfa að láta skólann vita ef óheimilt er að birta myndir af börnum þeirra á
vefsíðum skólans eða öðru útgefnu efni á vegum skólans.

Sími/tilkynningar forfalla
• Foreldrar hafi samband við ritara ef þeir þurfa að ná í kennara. Ritari kemur skilaboðum áleiðis
til kennara sem hefur samband síðar. Foreldrar geta aðeins haft símasamband við kennara
meðan á kennslu stendur ef brýna nauðsyn ber til.
• EF foreldrar þurfa að ná í börn sín á skólatíma, þarf að hafa samband við ritara, sem sér um að
koma sambandi á eða upplýsingum til nemanda. Börnum er óheimilt að nota síma sína á
skólatíma og því ekki gert ráð fyrir að foreldrar hringi beint í börn sín þó þau séu með síma í
töskunni.
• Foreldrar tilkynni veikindi daglega til ritara skólans. Slíkar tilkynningar eiga að berast áður en
skóli hefst á morgnana.

Heimsóknir foreldra í skólastofur
• Foreldrar eru hvattir til að kynna sér daglegt starf barna sinna í skólanum og skulu heimsóknir
í skólastofur ávallt vera í samráði og með samþykki viðkomandi kennara. Því þarf að hafa
samband við kennara ef foreldrar hafa áhuga á að koma í kennslustundir.

Upplýsingar frá skólanum til foreldra
• Upplýsingafundur er haldinn að hausti þar sem umsjónarkennarar hitta foreldra, kynna áætlun
vetrarins og ýmislegt sem snertir skólagöngu nemenda.
• Á heimasíðu skólans er að finna allar helstu upplýsingar um skólastarfið.
• Umsjónarkennari upplýsir foreldra reglulega, vikulega/á tveggja vikna fresti, um starfið í
umsjónarbekknum með tölvupósti eða fréttatilkynningum í Mentor.
• Einn foreldradagur er á haustönn þar sem foreldrar og nemendur hitta kennara og fara yfir
ýmis mál. Í upphafi vorannar er fundur þar sem farið er yfir mat á námi nemenda.