Skip to content

Stefna og sýn

Stefna skólans
Stefna Fossvogsskóla er að efla með nemendum sjálfstæði og frumkvæði í námi og félagslegu athæfi og búa þá undir lífið þannig að hæfileikar þeirra nýtist þeim og leiði þá til farsældar til framtíðar. Stefna skólans tekur tillit til mannréttinda samkvæmt Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna frá árinu 1989.

Hlutverk skólans
Hlutverk grunnskólans felst einkum í því að sjá nemendum fyrir formlegri fræðslu og þátttöku í félagslegri mótun þeirra. Frumábyrgð á uppeldi og menntun hvílir á foreldrum. Þetta sameiginlega verkefni kallar á náin tengsl, gagnkvæmt traust, gagnkvæma upplýsingamiðlun, samábyrgð og samvinnu.

Í Fossvogsskóla er áhersla á:

  • Fjölbreytt og skapandi nám sem eflir sjálfstæði og frumkvæði með nemendum
  • Grænan skóla sem vinnur að umhverfis- og loftslagsmálum árið um kring
  • Lýðheilsueflandi umhverfi
  • Skapandi skólastarf
  • Teymiskennslu og teymisvinnu
  • Uppbyggingarstefnu
  • Seiglu sem eflir með nemendum þolgæði fyrir mótlæti
  • Sveigjanleika sem eflir með nemendum þor til að takast á við nýjar áskoranir
  • Hinseginvænan vinnustað fyrir börn og fullorðna

Markmið Fossvogsskóla

Markmið Fossvogsskóla er að vera ætíð framúrskarandi skóli þar sem boðið er upp á vandað nám við hæfi hvers og eins. Í Fossvogsskóla á öllum nemendum að líða vel og þar er stuðlað að félagsþroska þeirra. Samstarf heimila og skóla er í þágu nemenda og lögð er áhersla á virkt upplýsingarflæði milli skóla og heimila. Mikil áhersla er á fjölbreyttar kennsluaðferðir þar sem tekið er tillit til ólíkra þarfa nemenda og námsumhverfið sé aðlaðandi. Nemendur læri að bera ábyrgð á gerðum sínum og eigin heilbrigði, þeir verði sjálfstæðir í námi og starfi og rækti með sér mannúð og samhygð. Aðstæður og búnaður sé alltaf eins og best verður á kosið.

Í Fossvogsskóla skal ætíð lögð áhersla á að hafa vel menntaða starfsmenn, að þeir hafi aðgang að starfsþróun við hæfi, að stöðugleiki ríki í starfsmannahópnum og öllum líði vel og þeir séu ánægðir. Starfsmenn séu meðvitaðir um hlutverk sitt og ábyrgð, þeir sýni frumkvæði og séu opnir fyrir nýjungum. Starfsmenn Fossvogsskóla taki þátt í mótun stefnu og starfi skólans.

Gildi skólans

Vinátta, virðing og vellíðan eru gildi skólans. Lögð er áhersla á að þessi hugtök setji mark sitt á allt skólastarf. Með vináttu að leiðarljósi hlustum við á hvert annað, sýnum samhygð, umhyggju og hjálpsemi gagnvart hvert öðru. Áherslan á virðingu í skólastarfinu birtist m.a. í samskiptum og teymisvinnu hverskonar og fjölbreyttu og skapandi námi þar sem leitast er við að samþætta námsgreinar og blanda nemendum saman með ýmsum hætti. Vellíðan tryggjum við með því að hreyfa okkur, mynda tengsl, taka eftir hlutunum í kringum okkur, gefa af okkur og halda áfram að læra með því að prófa eitthvað nýtt.

Við leggjum áherslu á sameiginleg gildi í skólasamfélaginu.

  • Við sýnum öðrum virðingu, vináttu og tillitsemi
  • Við pössum upp á að öllum líði vel
  • Við erum heiðarleg og umburðarlynd, sýnum ólíkum skoðunum og aðstæðum skilning
  • Við erum stundvís, iðjusöm og reglusöm
  • Við ræktum störf okkar af alúð og metnaði
  • Við erum samábyrg og gætum lýðræðis og réttlætis
  • Við gætum almennra mannréttinda
  • Við sýnum góða umgengni
  • Við leitumst við að taka framförum og hrósum fyrir það sem vel er gert
  • Við erum hugrökk og áræðin
  • Við öxlum ábyrgð á mistökum okkar
  • Við erum umhyggjusöm og reiðubúin til samvinnu og samhjálpar

Í Fossvogsskóla er í lagi að gera mistök, en við göngumst við mistökum okkar og leitumst við að læra af þeim og bæta fyrir þau eins og við best getum. Við höfum skipulagt innra eftirlit og aðhald með skólastarfinu, leggjum áherslu á markmiðssetningar og ígrundun. Skólinn er samfélag þar sem við vinnum saman að því að læra, þroskast og taka framförum, erum glöð og berum umhyggju hvert fyrir öðru.

Framtíðarsýn Fossvogsskóla

  • Fossvogsskóli leggur metnað í að nemendur séu farsælir í lífi og starfi.
  • Fossvogsskóli leggur áherslu á að nemendur viti að sjálfsagi, framsækni og vinátta er farsælt veganesti til framtíðar þar sem grundvallarspurningin er: Hvernig manneskja vil ég vera?
  • Fossvogsskóli leggur metnað í að vera í fararbroddi í lýðheilsu- og umhverfismálum.
  • Fossvogsskóli leggur metnað í að skólalóðin séu örugg og hlýleg.
  • Fossvogsskóli leggur metnað í að innan skólans sé notalegt að vera. 
  • Fossvogsskóli leggur sig fram um að bjóða upp á fjölbreytt og skapandi nám sem eflir með nemendum sjálfstæði og frumkvæði. 
  • Fossvogsskóli leggur metnað í að gagnkvæmur skilningur ríki á milli starfsfólks um umhyggju, kærleik og virðingu fyrir starfi allra í skólanum.