Skip to content

Stoðþjónusta Fossvogsskóla er einn af meginstólpum skólans. Hún samanstendur af sérfræðingum á sviði lesturs og sérkennslu, félagsráðgjafar, námsráðgjafar og talmeinafræði. Þá hefur stoðþjónustan aðgang að sérhæfðari þjónustu á Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis eins og hegðunarráðgjafa, kennslufræðingi og sálfræðingum. Stoðþjónustan fundar reglulega með nemendaverndarráði og lausnateymi skólans um mál einstakra nemenda. Áhersla er lögð á samstarf við foreldra með það að markmiði að vinna að heill nemandans. Stoðþjónustan getur því þurft að horfa út fyrir skólann í leit að bestu úrræðum fyrir nemendur.

Áherslur Fossvogsskóla liggja meðal annars í því að nemendum sé mætt þar sem þeir eru staddir í námi og starfi. Stoðþjónusta skólans ásamt umsjónarkennurum huga í sameiningu að því hvernig mæta skuli sem best einstaklingsbundum þörfum nemenda bæði hvað varðar þá sem hafa almenna námsörðugleika og eins hina sem víkja frá almennum viðmiðum í námi, þroska og/eða hegðun. Foreldrar eru lykillinn að framförum og eftirfylgni nemenda í námi og starfi og því er samráð við þá mikilvægt. Skólinn lítur svo á að samvinna við foreldra skili mestum árangri þegar kemur að þróun nemenda í námi og starfi.

Í Fossvogsskóla eru nemendur skimaðir í lestri og stærðfræði. Hér er um að ræða samræmdar og staðlaðar kannanir sem skólanum er skylt að leggja fyrir í ákveðnum árgöngum. Gefi niðurstöður þeirra vísbendingar um sértæka örðugleika er málið skoðað frekar. Að höfðu samráði við foreldra er ýmist leitað til stoðþjónustu skólans eða til sérfræðinga hjá  Þjónustumiðstöð um frekari vinnslu.

Í Fossvogsskóla er lögð áhersla á snemmtæka íhlutun í námi og starfi. Nemendur fá stuðning bæði í almennu skólastarfi og í frímínútum. Hann getur falið í sér aðlögðun á námsefni, námsmarkmiðum, námsaðstæðum og kennsluaðferðum sem og í félagslegri styrkingu. Þannig getur einn nemandi þurft tímabundinn stuðning í ákveðinni námsgrein á meðan annar þarf eftirfylgni í flestum námsgreinum.

Stefna Fossvogsskóla er að hver nemandi fylgi sínum nemendahópi eins og kostur er og taki þátt í skólastarfinu á sínum forsendum. Til að svo geti orðið vinna stuðningsfulltrúar og skólaliðar náið með stoðþjónustu og umsjónarkennara að velferð nemenda. Ef þurfa þykir er gerð einstaklingsnámskrá sem stoðþjónusta, umsjónarkennari og foreldrar hafa samráð um. Einstaklingsnámskrá er lifandi plagg sem tekur breytingum eftir framförum nemandans hverju sinni og er henni fylgt eftir af umsjónarkennara og/eða stoðþjónustu.

Almennt er það svo að eftir því sem frávik í þroska eða hegðun eru meiri því sérhæfðari og einstaklingsmiðaðri stuðning fær nemandinn í skólanum. Stuðningur getur farið fram í umsjónarstofu og/eða í námsveri. Þar er unnið í smærri hópum eða á einstaklingsgrunni og fá nemendur stuðning við allt almennt nám, félagsfærni og talþjálfun.

Lausnateymi
Lausnateymi Fossvogsskóla fundar að jafnaði tvisvar í mánuði. Í því sitja stjórnendur skólans  auk félagsráðgjafa, námsráðgjafa og hegðunarráðgjafa. Lausnarteymið fjallar um málefni nemenda sem kennarar og/eða foreldrar þarfnast aðstoðar með. Það leggur til úrræði sem unnið er eftir í samráði við umsjónarkennara og/eða foreldra. Ef lausnarteymið lítur svo á að einstök mál þurfi frekari vinnslu í nemendaverndarráði er þeim vísað þangað.

Nemendaverndarráð
Nemendaverndarráð Fossvogsskóla fundar að jafnaði tvisvar í mánuði. Í því sitja skólastjórnendur, sérfræðingar frá Þjónustumiðstöð auk aðila úr stoðþjónustunni. Á fundum er fjallað um málefni nemenda sem vegna félagslegra aðstæðna og/eða frávika í hegðun og þroska þarfnast sértækra úrræða á vegum Þjónustumiðstöðvar, skólans eða annarra sérfræðinga. Áhersla er lögð á samstarf við foreldra og eru þeir því upplýstir um málavöxtu áður en mál fara fyrir nemendaverndarráð.

Fossvogsskóli fylgir verklagsreglum Skóla- og frístundasviðs og Velferðarsviðs Reykjavíkur um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins vegna grunnskólanema með fjölþættan vanda, sjá verklagsreglur: https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/verklagsreglur_2012_breytingar_2015.pdf

 

Sjá nánar  um stoðþjónustu skólans í starfsáætlun Fossvogsskóla