Stoðþjónusta

Fossvogsskóli er skóli fyrir alla nemendur og það er meginhlutverk skólans að stuðla að alhliða þroska og menntun við hæfi allra nemenda. Í Fossvogsskóla er unnið eftir hugmyndafræði skóla án aðgreiningar sbr. grunnskólalögin, Aðalnámskrá grunnskóla og stefnu skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, „Skóli án aðgreiningar og sérstakur stuðningur við nemendur í grunnskólum“.

Skóli án aðgreiningar byggir á viðurkenningu og þátttöku allra nemenda. Námskráin er merkingabær fyrir alla nemendur og námsumhverfið einkennist af margbreytileika. Allir nemendur njóta virðingar og ná besta mögulega árangri. Skólastarf án aðgreiningar er ferli í sífelldri þróun, allt skólastarfið er heildstætt og samþætt og stuðningur er veittur eftir þörfum hvers og eins“.

(Skóli án aðgreiningar og sérstakur stuðningur við nemendur í grunnskólum 2011)

Í þessu fellst að hverjum nemanda er mætt í námi óháð atgervi hans og stöðu. Allir nemendur eiga rétt á kennslu við hæfi sem tekur mið af þörfum þeirra og líðan. Leiðir að þessum markmiðum felast meðal annars í sveigjanlegum kennsluháttum, fjölbreyttum sérúrræðum, samstarfi starfsfólks og markvissri ráðgjöf við kennara.

Meginstefnan er að nemandi sem þarf sérstakan stuðning fylgi eftir hópnum sem hann tilheyrir og að stuðningurinn fari sem mest fram innan hópsins.  

Það er stefna Fossvogsskóla að leitast við að koma til móts við þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska hvers og eins. Val á nemendum í sérstakan stuðning fer eftir niðurstöðum skimana, kannana og samræmdra prófa. Fari nemandi í sérstakan stuðning er eitt af kennslutilboðum skólans til að mæta þörfum nemenda. Hún er stuðningur við nemanda eða nemendahóp sem þarfnast tímabundinnar aðstoðar eða samfellds stuðnings um lengri tíma. Hún getur feluralið það í sér verulegar breytingar á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og/eða kennsluaðferðum miðað við það sem almennt gerist og miðar að því að mæta sérstökum þörfum hans.

Lögð er áhersla á ráðgjöf og stuðning við nemendur, kennara og annað starfsfólk skólans til þess að vinna að markmiðum skólans um nám við hæfi hvers og eins. Þannig er sífellt unnið að sem bestri þjónustu við nemendur sem þurfa sérstakan stuðning.

Með því að leggja fyrir skimanir, kannanir og samræmd próf má fylgjast vel með framförum nemenda og finna þá sem eiga í erfiðleikum með ákveðna þætti námsins. Sérstök áhersla er lögð á að finna nemendur í 1. bekk sem eru í áhættu vegna lestrarörðugleika og vinna markvisst með nemendur á fyrstu árum skólagöngunnar.

Prenta | Netfang