Áætlun um sérstakan stuðning við nemendur Fossvogsskóla

Í Fossvogsskóla vinnur fjölbreyttur starfsmannahópur að því að koma á móts við nemendur sem þurfa sérstakan stuðning. Þroskaþjálfi, námsráðgjafi, talmeinafræðingur, stuðningsfulltrúar, sérkennari og almennir kennarar. Fossvogsskóli fær þjónustu frá sálfræðingi, kennsluráðgjafa og fleiri sérfræðingum eftir óskum skólans hjá Þjónustumiðstöð Laugardals- og Háaleitis.

Skólinn fær úthlutað ákveðnu tímamagni til almennrar sérkennslu auk þess sem úthlutað er vegna einstakra nemenda með fatlanir eða alvarlegar raskanir.

Verkefnisstjóri sérstaks stuðnings er Guðmunda Ásgeirsdóttir yfirþroskaþjálfi.

Fatlaðir og langveikir nemendur

Stefna skólans er að allir nemendur fylgir sínum hópi og taki þátt í námi og starfi á sínum forsendum. Til þess að koma á móts við þá nemendur sem standa höllum fæti eru stuðningsfulltrúar sem vinna náið með umsjónarkennara og yfirþroskaþjálfa um velferð þessara barna. Mikil eftirfylgni er með nemendum í frímínútum. Sérstakur stuðningur er einnig fyrir þennan hóp barna s.s. lestrarstuðningur, félagsfærni og talþjálfun allt eftir þörfum og aðstæðum. Þessi stuðningur fer oftast fram í námsveri í litlum hópi. Teymi er í kringum alla nemendur sem verkefnisstjóri sérstaks stuðnings heldur utan um. Nemendur á einhverfurófinu hafa möguleika á myndrænum stundatöflum. Einstaklingsnámskrá er búin til að hausti í samráði við foreldra og forráðamenn og er endurskoðuð reglulega.

Nemendur með hegðunar-og geðraskanir

Nemendur með hegðunar- og geðraskanir eru undir stjórn umsjónarkennara. Verkefnisstjóri sérstaks stuðnings og umsjónarkennari skoða saman hvernig best er að koma til móts við nemendur hverju sinni. Í boði er að fara í námsver í minni hóp, fá stuðning inn í bekk, fara til námsráðgjafa í regluleg viðtöl og fá félagsfærniþjálfun allt eftir eðli máls. Umbunarkerfi eru oft notuð til þess að kenna viðeigandi hegðun og eru þá unnin í samvinnu við foreldra. Reglulegir teymisfundir eru haldnir varðandi nemendur. Einstaklingsnámskrá er unnin að hausti og endurskoðuð reglulega.

Nemendur sem þurfa sérstakan stuðning er falla ekki undir viðmið um úthlutun

Fossvogsskóli leggur metnað sinn í að koma til móts við alla nemendur. Þegar nemandi þarf sérstakan stuðning er fundað með foreldrum og farið yfir stöðu hans. Allt inngrip er með samþykki foreldra og hefur umsjónarkennari yfirumsjón með því sem gert er. Misjafnt er hvað gert er hverju sinni. Sérstakur stuðningur í minni hóp, stuðningur inn í bekk, einstaklingsnámskrá, námsráðgjöf, talkennsla og þroskaþjálfun. Nemendur fá aðallega aðstoð í lestri, ritun og stærðfræði.   Stuðningur getur verið í lengri eða skemmri tíma.

Prenta | Netfang