Umhverfis- og lýðheilsumál

Göngum eða hjólum í skólann

Það er augljóst merki um vorkomu í Fossvogsskóla þegar nemendur flykkjast  á hjólum í skólann og hjólagrindur á skólalóðinni fyllast.  Ánægjulegt er að sjá hversu margir nýta sér þennan umhverfisvæna ferðamáta.   Í mörg ár hefur skólinn hvatt nemendur til þess að ganga eða hjóla í skólann en jafnframt lagt áherslu á öryggi barnanna.  Foreldrar verða að sjá til þess að velja heppilegustu leiðina í skólann fyrir börnin sín,  benda á þá staði sem geta verið hættulegir og hvetja þau til að ganga eða hjóla á gangstéttum eða hjólastígum.   Einnig skulu foreldrar sjá til þess að þeir sem koma á hjóli noti öryggishjálm.   Það er mikill ávinningur í því að draga úr umferð að skólanum auk þess sem það eykur öryggi allra. 

Við vitum að hreyfing gegnir mikilvægu hlutverki fyrir líkamlega og andlega vellíðan og tengist betri einbeitingu og bættum námsárangri.  Í stefnu skólans er áhersla á umhverfis- og lýðheilsumál og er markmiðið að  nemendur hreyfi sig a.m.k. 60 mínútur á dag.

Skólaárið 2009-2010 var  unnið að því að kortleggja gönguleiðir og ferðamáta  nemenda í skólann.  Verkefnið er unnið í vefsjá  í samvinnu við Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar.  Um leið og skólinn fær  upplýsingar um hvernig krakkarnir koma í skólann, þ.e. gangandi, hjólandi eða er ekið,  fáum við jafnframt upplýsingar um hættur  á leið þeirra.  Fyrsta könnun var gerð í október 2009. og  tóku þátt í henni nemendur í  3. – 7. bekk og  endurtekin í febrúar 2010 en  þá voru allir nemendur skólans með.  Ánægjulegt að sjá hversu margir nemendur koma gangandi eða hjólandi í skólann.   „Kortlagning gönguleiða og ferðamáta grunnskólabarna“ má finna á heimasíðu skólans undir Umhverfis- og lýðheilsumál í aðalvalmynd.

Í könnun sem gerð var meðal foreldra vorið 2010 kom fram að foreldrar eru hlynntir því að skólinn hvetji  nemendur til að ganga eða hjóla í skólann.   Á heimasíðu skólans í aðalvalmynd „Umhverfis- og  lýðheilsumál“ eru nánari upplýsingar um þessa könnun.  Þar er einnig að finna gagnlegan gátlista fyrir reiðhjólaskoðun en mikilvægt er að hafa hjólin í góðu lagi. 

Nemendur 6. og 7. bekkjar fá fræðslu um hjólreiðar á valsvæðum á vegum "Hjólafærni á Íslandi".  Þar fá þeir markvissar leiðbeiningar um reiðhjólið, viðhald bremsubúnaðar og gíra og læra að gera við sprungið dekk.  Auk þess fræðast þau um hjólið í umferðinni.

Umhverfisdegi menntasviðs að vori helgum við reiðhjólinu.  Nemendum koma með hjólin sín í hjólaskoðun hjá Dr Bæk og fá úttekt á hjólinu og límmiða sem vott um að allt sé í góðu lagi.  Boðið er upp á smur, þrif, pumpa í og síðast en ekki síst er hjálmaskoðun.  Það eru nemendur í 7. bekk sem aðstoða, enda vel menntaðir í hjólafærni, auk þess sem foreldrar aðstoða við hjólaskoðun.  Í  tengslum við umhverfisdaginn er hjólavika í skólanum þar sem m.a. er boðið upp á hjólaferðir í frímínútum. 

Gísli íþróttakennari skipuleggur leiki í frímínútum bæði á haustin og vorin.  Á haustin stjórna 12 ára leikjunum undir stórn Gísla.  Fyrst og fremst er boðið upp á hreyfileiki, ýmsir boðhlaupaleikir, ratleikir og göngu- og hjólaviku.   Þessir leikir fara fram í frímínútum. 

Í Fossvsogsskóla lítum við svo á að hreyfing hafi góð áhrif á annað nám. 

Óskar skólastjóri

Prenta | Netfang