Vorvindaviðurkenning

Vorvindaviðurkenning IBBY á Íslandi – frábær börn sem lesa og miðla
Í dag fór fram í Borgarbókasafninu í Grófinni afhending á Vorvindaviðurkenningu IBBY á Íslandi. Í þetta skipti voru það nemendur okkar í 7. bekk í Fossvogsskóla sem fengu viðurkenningu fyrir bókmennta- og lestrarverkefnið sitt 5. bekkur/6. bekkur/7. bekkur mælir með … sem þeir hafa unnið að undanfarin ár á starfstíma skólans. Verkefnið hefur alfarið verið á höndum foreldra og hefur Gunnhildur Lilja Sigmundsdóttir, móðir í árganginum, haldið utan um það frá upphafi.
Kveikjuna að verkefninu má rekja til bókaklúbbs sem mæður drengjanna í árganginum voru með. Í hverjum bókaklúbbi voru bornar fram veitingar samhliða því að rætt var um innihald bóka. Þetta sáu synirnir í hendi sér að þeir gætu mögulega horft til í samskonar klúbbi. Því var farið af stað með Syrpuklúbbinn sem síðan þróaðist yfir í bókaklúbb. Í öllum klúbbum eru bornar fram veitingar sem nemendur geta gætt sér á samhliða umfjöllun sinni og umsögn um bækurnar sem lesnar hafa verið þann mánuðinn. Í kjölfar hvers klúbbs er umsögnum um hverja bók safnað saman og sett saman í hefti sem dreift er til allra í árganginum. Heftin eru orðin ansi mörg og mjög gaman er að blaða í gegnum þau og sjá hve miklum framförum börnin hafa tekið í lestri og ritun frá því verkefnið hóf göngu sína.
Í dag voru það stolt börn í Fossvogsskóla sem stóðu í Grófinni og tóku á móti viðurkenningu fyrir natni og dugnað í lestri og miðlun upplýsinga um bækur til þeirra sem eru með þeim í árgangi. Þetta var einstaklega ánægjuleg stund og það var sérlega gaman að deila henni með þeim sem þar voru. Bestu þakkir öll sem eitt og haldið endilega áfram að lesa og skrifa ritdóma … Ingibjörg Ýr

